Um safnið

Ágrip af sögu Bókasafns Hrunamanna

Árið 1890 gengust þeir sr. Steindór Briem í Hruna og Jón Jónsson bóndi á Syðra-Seli fyrir stofnun lestrarfélags í Hruna- og Tungufellssókn. Félagið var nefnt Lestrarfélag Hruna- og Tungufellssókna. En tveim árum síðar var nafni þess breytt, og hét það eftir það Lestrarfélag Hrunasóknar. Félagið var stofnað með frjálsum samskotum bænda, bæði í bókum og peningum.

Árið 1896 hættir starfsemi Lestrarfélags Hrunasóknar, en lítils háttar var þó geymt af bókum.

Sex árum síðar, eða árið 1902 endurreisa þeir Jón bóndi á Syðra-Seli og synir hans, Guðjón og Hjálmar, lestrarfélagið.

Árið 1905 hefst blómaskeið í starfsemi Lestrarfélagsins. Þá kemur sr. Kjartan Helgason að Hruna. Gerðist hann strax mikill stuðningsmaður félagsins, tók að sér bókakaup þess og reikningshald.

Bókunum var komið fyrir í litlu herbergi eða kompu í fordyri Hrunakirkju og útlán fóru þar fram eftir messu. En áður en langt um leið, reyndist það húsnæði of lítið. Voru þá settir upp skápar í þinghúsi sveitarinnar, sem var í Hruna, og bækurnar fluttar þangað. Þar voru þær til húsa þar til íbúðarhúsið í Hruna brann ásamt þinghúsinu 1949. Bókunum var flestum bjargað úr eldinum og þær bornar í kirkjuna.

Var bókasafnið lítt starfhæft til 1952 en þá fékk það afnota af litlu kjallaraherbergi í nýja prestseturshúsinu. Oft var þröngt í búi hjá Lestrarfélaginu. Útgáfa bóka jókst ár frá ári og áhugi á bóklestri var mikill, sérstaklega eftir að Ungmennafélag Hrunamanna var stofnað og farið var að ræða um bækur á fundum þess.

Árið 1959 hefst nýr þáttur í sögu Lestrarfélags Hrunasóknar. Þá er bókasafnið gert að sveitarbókasafni og starfrækt síðan eftir hinum nýju bókasafnslögum. Það fékk nafnið Bókasafn Hrunamanna og árið 1968 flutti það í miðbyggingu félagsheimilis sveitarinnar.

Frá árinu 1952 annaðist Guðmundur Jónsson á Kópsvatni um útlán og bókakaup. Hann var mikill safnari og safnaði ýmsu sem aðrir báru ekki skynbragð á að gera.

Árið 1986 tók Svava Pálsdóttir við umsjón bókasafnsins. Hún hafði veg og vanda að ýmsum listviðburðum í safninu, s.s. myndlistar- og brúðusýningum. Árið 1998 fékk Skólabókasafn Flúðaskóla aðstöðu fyrir bókakost sinn á safninu þar sem farið var að þrengjast um í húsnæði skólans.

Árið 2000 tók Eva Marín Hlynsdóttir við umsjón bókasafnsins. Eva kynnti sér nútímahætti í bókasöfnum og lagði grunn að því að bókasafnið yrði tölvuvætt og bókakostur þess tengdur gagnagrunni Landskerfi bókasafna.

Árið 2004 var gerður samningur milli Hrunamannahrepps og Flúðaskóla vegna reksturs á Bókasafni Hrunamanna og Skólabókasafni Flúðaskóla. Söfnin skildu sameina bókakost sinn undir einn hatt og nafn þess yrði Bókasafn Hrunamanna. Flúðaskóli sér um rekstur safnsins og kappkostar að jafnvægi verði á milli rekstrar almenningsbókasafnins og skólabókasafnsins þannig að hagsmunir beggja safna fái notið sín.

Þann 1. október 2004 tók Áslaug Bjarnadóttir við umsjón bókasafnsins. Sumarið 2005 komst loksins á háhraðatölvutenging í bókasafninu. Tvær tölvur voru settar upp, önnur fyrir starfsmann bókasafnsins en hin fyrir almenning til að hafa aðgang að Internetinu.

Um haustið 2005 hófst vinna við að tengja safnkost bókasafnsins við Gegni. Gegnir er samskrá bókasafna, þ.e. skrá um safnkost þeirra. Landskerfi bókasafna rekur þetta miðlæga bókasafnskerfi og markmið þess er að tryggja landsmönnum aðgang að bókfræðilegum upplýsingum sem nýtast í námi, starfi og leik.

Í júní 2008 var heimasíða Bókasafns Hrunamanna opnuð. Áslaug Bjarnadóttir tók það sem eitt verkefni í námi sínu í Upplýsinga- og bókasafnstækni í Borgarholtsskóla að hanna heimasíðu fyrir Bókasafnið. Upphaflega var síðan unnin í Dreamweaver en var svo færð yfir í vefumsjónarkerfið Joomla. Haustið 2015 var heimasíðan færð yfir í vefumsjónarkerfið WordPress.

Haustið 2009 var búið að tengja um 5000 safngögn við Gegni. Heilmikið verkefni er eftir, það er að tengja flest allar fræðibækurnar og hluta af barnabókadeildinni. Þrátt fyrir að enn sé langt í land að lokið verði við að tengja allan safnkostinn þá var þetta haustið útlánaþáttur Gegnis tekinn í gagnið. Rafræn bókasafnsskírteini voru tekin í notkun sem gera lánþegum kleift að fara inn á “Mínar síður” í Gegni. Þar geta lánþegar m.a. séð hvað þeir eru með í láni, endurnýjað og fleira.

Eftir því sem vinnu við tengingu safnkosts Bókasafns Hrunamanna við Gegni vinnst, með tilkomu nýrrar heimasíðu safnsins og notkun á rafrænum bókasafnsskírteinum, má segja að stórt skref hafi verið tekið í nútímavæðingu Bókasafns Hrunamanna.

Þann 31. ágúst 2016 lét Áslaug Bjarnadóttir af störfum sem forstöðumaður bókasafnsins eftir rétt tæplegan 12 ára starfsferil. Inga Jóna Hjaltadóttir tók við starfinu frá og með 1. september 2016.

Vinnu við tengingu safnkosts hefur jafnt og þétt verið haldið áfram ásamt frekari nútímavæðingu svo sem með því að gera útlán til skólastofnana Hrunamannahrepps rafræn og stofna facebook fyrir safnið haustið 2016.

Bókasafn Hrunamanna gerðist aðildarsafn að Rafbókasafninu árið 2018. Rafbókasafnið er bókasafn á vefnum þar sem finna má fjölda raf- og hljóðbóka af öllu tagi, fyrir alla aldurshópa.

Ýmsar nýjungar hafa verið reyndar á safninu síðustu ár sem gefist hafa vel, svo sem að fá höfundaheimsóknir, standa fyrir bókamörkuðum og hefja útlán á púsluspilum svo eitthvað sé nefnt.

Bókasafn Hrunamanna hefur verið svo lánsamt að eiga að velunnara sem fært hafa safninu gjafir sem styrkja safnkostinn (í samræmi við aðfangastefnu). Safnið þakkar fyrir góðar gjafir og vonar að viðtekið efni nýtist gestum sem allra best.

Nokkrar breytingar voru gerðar á húsnæði bókasafnsins í Félagsheimili Hrunamanna, árið 2021, safninu til góða en það voru nýjir gluggar og ljós.

Mikil breyting átti sér stað sumarið 2022 þegar Landskerfi bókasafna skipti um bókasafnskerfi á öllum bókasöfnum á landinu, almennings- og skólabókasöfnum. Bókasafnskerfinu Gegni sem hafði verið í notkun undanfarin ár var lokað og yfirfærsla átti sér stað í nýtt kerfi, Ölmu sem opnað var þann 13. júní 2022.

Eftir sex ár í starfi eða þann 31. ágúst 2022 lét Inga Jóna Hjaltadóttir af störfum sem forstöðumaður bókasafnsins. Við starfinu tók Ásta Rún Jónsdóttir frá og með 1. september 2022.

Heimildir: Árnesingur I – Hrunamenn 1. og 2. bindi. Ritstjóri Þorsteinn Jónsson. Byggðir og bú ehf. 1999.

———–

Ágrip af sögu Skólabókasafns Flúðaskóla.

Vorið 1929 var hafist handa við byggingu barnaskóla í landi Hellisholta. Húsið var reist rétt við einn stærsta hverinn í gilinu við Hellisholtarlækinn og það hitað upp með hveravatninu. Húsið var teiknað á teiknistofu húsameistarans í Reykjavík, Guðjóns Samúelssonar og var hið þriðja í röð heimavistarskólahúsa sem byggð voru hér á landi eftir 1920 og hið stærsta. Þar var gert ráð fyrir 20 nemendum í heimavist og íbúð skólastjóra.

Bygging skólans gekk fljótt og vel og þann 27. október 1929 fór fram vígsla hússins og skólasetning. Skólastjóri var Ingimar H. Jóhannesson.

Bókasafn var stofnað mjög fljótlega eftir að skólinn tók til starfa. Var það mikil nauðsyn. Bókasafnið varð til með þeim hætti, að skólastjóri gaf nokkrar bækur og börnin bættu svo við smá saman. Mjög fljótt var lagt dálítið gjald á vandamenn barnanna árlega. Var það 1 króna á nemenda og innheimt með heimavistargjaldinu. Í árslok 1937 var því orðið til dálítið bókasafn, er notað var bæði við kennslu og til lestur í tómstundum. Árið 1964 flutti skólinn í núverandi húsnæði.

Á 8. áratugnum hafði Halldór Gestsson, húsvörður umsjón með safninu sem þá var í litlu herbergi á 2. hæð skólahúsnæðisins.

Á 9. áratugnum tók Þorleifur Jóhannesson við skólabókasafninu og kom upp spjaldskrá yfir bókakostinn.

Frá haustinu 1997 hafði Elín Hannibalsdóttir, kennari umsjón með bókasafni skólans. Á þeim tíma flytur Skólabókasafn Flúðaskóla bókakost sinn yfir í húsnæði Bókasafns Hrunamanna sem var til húsa á 2. hæð í Félagsheimili Hrunamanna. Þar fékk Elín aðstöðu til bókasafnskennslu fyrir nemendur Flúðaskóla.

Árið 2004 var gerður samningur um að skólabókasafnið og almenningsbókasafnið sameinuðu bókakost sinn undir einn hatt og eitt nafn: Bókasafn Hrunamanna. Flúðaskóli sér um rekstur þessa samsteypusafns.

Heimildir: Árnesingur I – Hrunamenn 1. og 2. bindi. Ritstjóri Þorsteinn Jónsson. Byggðir og bú ehf. 1999.